154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið og fyrir tækifærið til að koma hér aftur upp í pontu til að leggja áherslu á mál mitt. Fjárlagafrumvarp næsta árs er áætlun fram í tímann, vissulega. En fyrst áætlun launa- og rekstrarkostnaðar er miðuð við þróun verðlags og launa á yfirstandandi ári, af hverju er það ekki líka gert varðandi lífeyri almannatrygginga? Það er stóra spurningin. Við erum með sitthvoran grundvöll. Laun og rekstrarútgjöld eru miðuð við launa- og verðlagsþróun á yfirstandandi ári. Þar er fest leiðrétting fram í tímann. Þú ert með raunverulegan grundvöll, ekki spá. En það sem er tekið út fyrir sviga er lífeyrir almannatrygginga, hann er samkvæmt verðbólguspá. Þessi spá er 4,9%. Ég tel að það sé allt of lág spá. Ég efast um að verðbólga á næsta ári verði 4,9%. Af hverju? Af því að ríkisfjármálunum hefur ekki verið beitt af nægjanlega mikilli hörku gegn verðbólgunni. Þessir 9,25% stýrivextir í dag fara að bíta kannski upp úr miðju næsta ári. Málið er að þetta er miklu lægri fjárhæð og kannski að hæstv. fjármálaráðherra geti komið hér í pontu og sagt að hann lofi leiðréttingu ef verðbólgan verður hærri en 4,9% eða ef hún verður 6% eða 7%. Það er merki þess, vegna skorts á samkeppni, að verðbólgan sé farin að hafa sitt eigið sjálfstæða líf í samfélaginu út af svokallaðri græðgisverðbólgu. Fyrirtækin fara að hækka, það eru væntingar um verðbólguhækkanir, hæstv. fjármálaráðherra þekkir það væntanlega. Mun hann hækka vegna verðbólgu umfram 4,9%? Það var umfjöllunarefni ræðu minnar, að kjaragliðnun heldur áfram. Þetta er búið að vera að gerast ár eftir ár og það er ekki gott mál. Einhvern tíma verður að grípa inn í og tölur frá Hjálparstarfi kirkjunnar sýna það skýrt og skorinort.